24.4.2008 | 01:58
Trukkaslagurinn
Þetta hefur verið merkilegur dagur því eftir því sem grafið er dýpra virðast allir sem að komu hafa misst stjórn á sér (þar á meðal fjölmiðlar)... og merkilegt nokk, trukkastjórarnir koma, eftir því sem ég best fæ séð, nokkuð vel frá því.
Það er kannski rétt að geta þess að ég var orðinn langþreyttur á mótmælum vörubílstjóra vegna þess að mér fannst þau beinast gegn röngu aðilunum - almenningi. Miklu markvissara og hnitmiðaðra hefði verið að loka götunum þar sem ráðherrarnir búa og koma þannig skilaboðunum áleiðis á beinni hátt - sem sýndi sig þegar þeir lokuðu ráðherrabílana inni fyrir nokkrum vikum og ég sá Geir H Haarde - í fyrsta sinn (þennan annars geðprúða mann) - verulega pirraðann.
Núna koma nokkrar vangaveltur og spurningar sem ég ætla að velta upp - því þetta er það mikill viðburður að það verður að kryfja það sem gerðist til hlítar.
1. Hver gaf skipunina um að senda "heimavarnarliðið" grátt fyrir járnum á staðinn... og tvo sjúkrabíla til vonar og vara?
Síðustu vikur hefur verið eins konar "regla" á óreglulegum mótmælum vörubílstjóra og í gildi hefur verið þegjandi samkomulag um að þegar löggan mætir á svæðið þá leysist þetta smám saman upp. Ég hef skoðað nokkur hundruð bloggfærslur í kvöld og ætla að nefna nokkrar þeirra. Í einni þeirra (þetta var áður en ég byrjaði með þetta blogg - annars hefði ég vistað "tengilinn") kemur fram áhrifarík lýsing manns sem tilheyrir ekki hagsmunasamtökum vörubílstjóra, en hann mætti samt á svæðið til að sýna þeim stuðning. Þegar lögreglan hóf "framrás" sína og úðaði piparúða í augu nærstadds manns (sem var þó hálfan annan metra frá átakalínunni) reyndi hann ásamt félaga sínum að hlúa að manngarminum á meðan slagsmálin brutust út allt í kringum þá. Og, að hans sögn, mátti hann þola það að spörkum og kylfuhöggum rigndi yfir sig á meðan hann gerði það eitt af sér að reyna að vernda fallinn vegfaranda fyrir ofsagangi lögreglunnar.
Ég hef skoðað fréttamyndirnar af atburðarásinni aftur og aftur til að reyna að átta mig á því sem gerðist og eina niðurstaðan sem ég get komist að er sú að "yfirvöld" (þar sem enginn vill segja hver gaf skipunina um að senda, í fyrsta sinn í þessari mótmælahrinu, óeirðalögreglu á vettvang) ákváðu að það væri hart að sitja sífellt undir því í fjölmiðlum að vörubílstjórar fengju vægari meðferð en þeir sem mótmæltu við Káraknjúka... eða veslings Tíbet-sinnarnir.
2. Var búið að ákveða fyrirfram af hálfu lögreglunnar að láta sverfa til stáls... eða var ákvörðunin tekin á staðnum?
Eftir allan minn lestur í kvöld virðist raunin vera sú að lögreglan hafi fyrst beðið bílstjórana með góðu að fjarlægja bíla sína (en á sama tíma var óeirðarlögreglan á leiðinni á svæðið ásamt tveimur sjúkrabílum). Þeir þráuðust við og þá virðist lögreglan hafa ákveðið að fara í skotgrafirnar... þannig að í stað þess að mótmælin lognuðust út af - eins og þau hafa alltaf gert - var olíu skvett á eldinn.
Þegar bílstjórarnir ætluðu að fara að fjarlægja bíla sína var þeim sagt að búið væri að leggja hald á þá (mjög gáfulegt, eða hitt þó heldur - ef yfirlýsta markmiðið um að greiða úr flækjunni hefur verið haft að leiðarljósi). Þar sem þeir töldu sig hafa komið sínu fram vildu þeir bara setjast í sína bíla og aka á brott (lögreglan hefur væntanlega verið búin að skrá niður númer allra bílanna og hefði því getað boðað þá til yfirheyrslu eftir á). Þess í stað var einum bílstjóra meinað að setjast inn í bíl sinn til að fjarlægja hann... út brutust stympingar - og þar með var fjandinn laus.
Ef markmið lögreglunnar var að koma bílunum í burtu, hvers vegna var þá bílstjóranum ekki leyft að aka bíl sínum á brott? Þar sem lögreglan vissi um hvaða bíl var að ræða hefði mátt kalla bílstjórann til yfirheyrslu eftir á og jafnvel leggja hald á bílinn.
3. GAS!!! GAS!!! GAS!!!
Í "múgstjórnun" er venjan að reyna að fæla fólk frá átakasvæðinu með viðvörun í gegnum gjallarhorn áður en nokkuð gerist. Sú viðvörun virðist ekki hafa verið gefin. Þess í stað er andlit lögreglunnar í þessum aðgerðum lögga sem gengur fram með piparúðabrúsann og öskrar "Gas! Gas! Gas! Farið af götunni! Gas! Gas!" Það virtist vera úðað á hvern þann sem var í færi og lögreglan virtist alls ekki vera að reyna að koma "ró" á mannskapinn. Sama hvað stjórnarsinnar segja (þar á meðal hæstvirtur forsætisráðherra, Geir H Haarde, sem þykist geta metið og lagt dóm á það sem gerðist þrátt fyrir að vera erlendis) getur engum dulist sem horft hefur á fréttamyndirnar af atburðum dagsins að lögreglan sleppti sér gjörsamlega og varð sér til skammar. Það eru þó nokkur myndbrot á sveimi í vefheimum sem sýna íslensku lögregluna í sinni verstu mynd og það er dapurlegt.
4. "Afgirta svæðið".
Á svona stundum er eðlilegt að lögreglan girði af svæði og marki ákveðna víglínu. Ég hef ekkert út á það að setja. Hins vegar þótti mér dapurlegt að sjá að þegar "löggan var komin í stuð" gengu þeir fram með skildina fyrir framan sig... og mannfjöldinn bakkaði, eðlilega. En ef einhver vogaði sér að ganga fram og skamma þá fyrir ofbeldi og ólýðræðislega vinnubrögð... þá stukku fram einar fimm til sex löggur (líkt og úlfar að tvístra dýrahjörð) og drógu viðkomandi inn fyrir víglínuna og hlekkjuðu hann. Hvað er orðið um málfrelsið og lýðræðið í landinu?
5. Þátttaka fjölmiðla.
Mér þótti ein ónefnd fréttakona ansi aðgangshörð að lögreglu og fulltrúum vörubílstjóra og hún spurði einn fulltrúa lögreglunnar - nokkrum mínútum fyrir átökin - af hverju það væri tekið miklu vægar á vörubílstjórunum en til dæmis þeim sem hefðu mótmælt við Kárahnjúka eða veru Kína í Tíbet á Þingvöllum. Og svar lögreglufulltrúans lét ekki á sér standa: "Bíddu bara í nokkrar mínútur, þá færðu að sjá hvernig við tökum á þeim." Og viti menn - eftir nokkrar mínútur var allt farið í háa loft. Þetta færir ekki beinlínis rök fyrir því að lögreglan hafi verið "að bregðast við aðstæðum" eins og yfirmenn hennar héldu fram í kvöldfréttum. Þvert á móti bendir það til þess að búið hafi verið að ákveða að taka hart á þessu og nota fyrsta tækifæri til að sýna máttinn.
6. Múgæsing fjölmiðla.
Ég hef heyrt að til sé upptaka, sem var víst spiluð margoft á Útvarpi Sögu í dag, þar sem sama fréttakona segir (af því hún heldur að hún sé að tala við stjórnstöðina í trúnó): "ég gæti fengið einhvern til að kasta eggjum á meðan við erum læv...". Ef þetta er rétt á að kæra hana fyrir að hvetja til múgæsingar og reka hana samdægurs fyrir að brjóta fyrstu reglu ærlegs fréttamanns: "Þú átt aldrei að búa til eða reyna að móta fréttina sem þú fjallar um."
Ef þetta er rétt má segja að Stöð 2 eigi meiri sök á eggjakastinu en vörubílstjórarnir... en þeir fá samt skellinn fyrir það - meira að segja þegar umrædd fréttakona tók viðtal við Sturlu og spurði hann út í eggjakastið sem HÚN SJÁLF stóð að. ´
7. Viðbrögð ráðamanna.
Mér þótti fyndið að heyra Björn Bjarna og Geir H segja með þykkjutóni: "Við hlustum ekki á fólk sem gengur fram með lögbrotum" (eða eitthvað í þá veru). Síðan hvenær hafa þessir herramenn hlustað á nokkurn sem er þeim ósammála? Hvað er að gerast á Landspítalanum? Það fer allt til andskotans um næstu mánaðarmót vegna þess að þessir háu herrar hlusta ekki á andmæli. Þegar vörubílstjórar stóðu fyrir mótmælum fyrir þremur árum var þeim sagt að erindi þeirra yrði tekið til skoðunar. Hverju skilaði það? ENGU! Mér þykir því frekar fyndið að þeir virðist hálf-hissa á því að vörubílstjórum dugi ekki fyrirheit um að skoða málin einhvern tíma þegar þeim þóknast. Það vita allir að loforð ráðamanna eru einskis virði nema það séu þrír mánuðir í kosningar. Þá allt í einu er hægt að lofa öllu fögru. Og það versta er að flokkurinn sem ég trúði á og kaus í síðustu kosningum, Samfylkingin, hefur gert sig ótrúverðugan og að hálfgerðu athlægi með því að taka við hlutverki Framsóknarflokksins sem stimpilpúði fyrir duttlunga Íhaldsins.
8. Lokaorð.
Ég átti ekki von á því að blessa vörubílstjóra í þessum langþreyttu aðgerðum sínum... en í einu vetvangi í morgun náði lögreglan að gera "óaldaseggina" að lítlimagnanum og hér með styð ég þá af heilum hug og mun láta þolinmæðina sigra frekar en að pirrast næst þegar ég lendi í halarófunni fyrir aftan þá. En samt....
PS.
Vörubílstjórar: Þið sáuð hvað Geir H varð pirraður í þetta eina skipti sem að mótmæli ykkar bitnuðu á honum. Hvernig væri að fara að sigta út Geir, Björn, Árna Matt og Sollu? Þá fyrst væri von til þess að eitthvað færi að gerast.
Fairlane
Athugasemdir
Ég er bara nokkuð sammála ykkur líka
Pálmi Freyr Óskarsson, 24.4.2008 kl. 03:55
Þarf ekki einmitt að skoða svona mál í víðu samhengi áður en við fellum dómana???
Ég tel mig hafa skoðað flest í dag... "Myndskeiðin, ráðherrasvörin, fréttafalsanirnar" og flest hitt... en plís - Útvarp Saga - sendu okkur myndmálsbútinn þar sem fréttaynjan lofaði að hvetja til eggjakasts!!!
Fairlane (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 05:02
Við hvern var Lára að spjalla, hver keypti öll eggin, því er mál vörubílstjóra 3 ár í nefnd hjá stjórnvöldum án nokkurrar niðurstöðu, því þurfa stjórnvöld aldrei að svara fyrir það sem þau lofa, því er olía dýrari en bensín þvert á það sem lofað var ... en annars fín samantekt hjá þér.
En annars væri gaman að það væri farið betur í saumana á því hvernig fréttastofum er stjórnað og hvernig fréttamiðlar eru notaðir til þess að hafa bein áhrif á atburðarás líðandi stundar, það skildi þó ekki vera að þar væri einhver pólitík í gangi. En ég á annars ekki von á því að fjölmiðlafólk vilji fá það upp á yfirborðið sem að þeim sjálfum snýr ... frekar en stjórnmálamenn. Það mátti sjá að sjálfur Egill Helgason vari farin að draga í land þegar lætin urðu sem mest hér í gær :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.4.2008 kl. 07:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.